Framboðsfundur á Egilsstöðum

Kæru Austfirðingar Þegar ég flutti austur hóf ég störf hjá Þróunarfélagi Austurlands og var mitt fyrsta verkefni að vinna stefnumótun menntamálaráðuneytisins um stofnun Þekkingarnets Austurlands, sem stofnað var á grunni Fræðslunets Austurlands. Niðurstaða þeirrar vinnu var breytt hlutverk sem fólst í að auka áherslu á háskólanám og rannsóknir og kanna möguleika á að byggja upp nærþjónustuna víðar á Austurlandi. Í kjölfarið voru settar upp starfsstöðvar á Hornafirði og Neskaupsstað.

Eitt stærsta verkefni mitt hjá ÞFA var uppbyggingu á Vaxtarsamningi Austurlands en alls tóku 62 aðilar þátt í Vaxtarsamningnum, allir háskólar landsins, helstu rannsókna- og menningastofnanir landsins, stofnanir, fyrirtæki og framhaldsskólar á Austurlandi. Yfir 20 störf hafa skapast í tengslum við VAXA. 

Eftir tveggja ára starf hjá ÞFA tók ég við framkvæmdastjórastarfi hjá Þekkingarneti Austurlands. Í minni tíð sem stjórnandi hafa, í samstarfi við sveitarfélögin,  verið opnaðar starfsstöðvar á Vopnafirði og Reyðarfirði. Auk þess hafa fjarfunda- og námsver hafa verið opnuð á Seyðisfirði, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði og fyrirhugað er námsver á Borgarfirði, áður voru slík ver á Fáskrúðsfirði, Djúpavogi og Vopnafirði. Þá hefur ÞNA unnið að því að auka samstarf fræðimanna og sérfræðinga á Austurlandi, sett upp rannsóknabókasafn Austurlands og vinnur að gagnagrunni um rannsóknir og sérfræðinga á Austurlandi.

Auk þess að vinna að aukinni nærþjónustu hefur Þekkingarnetið verið stöðugt virkari þátttakandi í Evrópusamstarfi og má þar nefna að við tökum þátt í stóru Evrópuverkefni í upplýsingatækniáætluninni um námsráðgjöf í gegnum netið og fengum tæplega 19 milljón króna stuðning frá menntaáætlun EU til að vinna að hugmyndum um Netháskóla Íslands. ÞNA hefur komið að aðgerðum sem farið hefur verið í hér á Austurlandi í tengslum við efnahagshrunið má þar nefna opnun miðstöðvar atvinnuleitenda á Héraði og fyrirhugað átaksverkefni í Fjarðabyggð sem vistað verður í starfsstöð ÞNA á Reyðarfirði. Þá höfum við tekið að okkur að skipuleggja námsúrræði, náms- og starfsráðgjöf fyrir atvinnuleitendur fyrir hönd Vinnumálastofnunar.

Byggt á reynslu minni af Evrópusamstarfi, 6 ára starfsferli mínum hjá Rannsóknaþjónustu HÍ, þá tel ég að nú sem aldrei fyrr sé mikilvægt að tvinna saman atvinnulíf og menntun og með því innleiða norræna og Evrópska hefð fyrir starfsmenntun og vinnustaðanámi og hef síðustu misseri unnið að umsóknum um þekkingaryfirfærslu og samstarfsverkefni ESB sem miða að þróun slíkra verkefna í samstarfi við Finna, Norðmenn og Dani.  

Ég vil að Austfirðingar meti mig af mínum störfum í fjórðungnum og tel mig hafa unnið að hagsmunum heildarinnar. Ég hef beitt mér fyrir því að skoðaðir verði möguleikar á að sameina og samræma stoðkerfi atvinnulífsins á Austurlandi þannig að það þjóni íbúum sem best og að skoða verði í fullri alvöru að sameina gamla kjördæmið í eitt sveitarfélag.  Það er skoðun mín að í þessu kjördæmi eigi að byggja upp samræmda atvinnu- og menntastefnu og að kjördæmið eigi að hafa sjálfræði í sem flestum málum. Slík stefnumótun er það sem gerist og gengur í EU en kjarnin í þeirri hugmynd er að byggðamál eru ekki vandamál heldur vörður í vexti ólíkra svæða.

Það hefur ekki farið fram hjá mér að óvíða eru samgöngur erfiðari en á Austurlandi og að flutningskostnaður getur tvöfaldað kostnaðinn við rúm frá IKEA.  Vegna vinnu minnar hef ég marga fundi sótt á öllum tímum árs og þó að sú reynsla hafi vissulega gert mig að betri bílstjóra þá hefur hún einnig sannfært mig enn frekar um að eigum við að laða til okkar fólk af mölinni þá þurfum við bættar samgöngur og kanski þurfum við einmitt að fá fólk af mölinni austur til að draumur Guðrúnar Katrínar og fleiri um Samgöng verði að veruleika. Nú er tækifæri til að fara í slíkar framkvæmdir til að skapa störf og efla byggð.

Það er gott að búa á Austurlandi og hér liggja gríðaleg tækifæri í sjávarútvegi (t.d. fiskeldi), ferðaþjónustu (í tengslum við stærsta Þjóðgarð Evrópu) og í öflugum fyrirtækjum tengdum mannvirkjagerð (Mannvit). Hér eru sóknafæri í hönnun og handverki og síðast en ekki síst þá tel ég að við getum, í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla, byggt upp öflugt staðbundið háskólanám á Austurlandi, grunnnám, meistara og doktorsnám. 

Sóknafæri Austfirðinga felast liggja einnig í öflugri ferjuhöfn á Seyðisfirði, útflutningshöfn á Reyðarfirði og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar. Hér má byggja upp öfluga strandflutninga og fólksflutninga sem rennt geta stoðum undir ferðaþjónustu, út- og innflutning á svæðið.

Ég set Evrópumálin á oddinn vegna þess að ég er Evrópusinni í hjarta mínu og tel að aðild að EU færi okkur ekki eingöngu efnhagslegan stöðuleika og bæti stöðu heimilanna heldur einnig vegna þess að ég veit að við eigum margt ólært til að okkar efnahags-, velferðar og menntakerfi standist samanburð.

Þó ég bjóði mig hér fram í 2.-4. Sæti lista Samfylkingarinnar í Norð-Austur kjördæmi þá ætla ég og mínir ekki að flytja af svæðinu, ef ég kemst á þing, enda legg ég til að þingið nýti sér tæknina og geri þingmönnum kleift að stunda sín störf í heimabyggð, mig minnir að þetta hafi kallast í síðustu kosningabaráttu „Störf án staðsetningar“.


Enginn er ómissandi !

Það kom mér verulega á óvart að heyra í dag að Ingibjörg Sólrún ætlaði að bjóða sig fram á ný sem formaður Samfylkingarinnar og standa þar með við hótun sína um að halda áfram í stjórnmálum. Hún telur sig hafa fært Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherrastólinn meðan að öllum er ljóst að Jóhanna er sú sem þjóðinn valdi og treysti fyrir þeim erfiðu verkefnum sem framundan eru. 

Samfylking þarf að koma heil fram í næstu kosningum, forsætisráðherra Samfylkingarinnar ætti líka að vera leiðtogi flokksins og formaður. Þjóðinn hefur sameinast um Jóhönnu og það þarf flokkurinn að fá að gera líka. Samfylkingin hefur ekki efni á meðvirkni lengur. Of mörg mistök hafa verið gerð, stjórnleysi í veikindaleyfi Ingibjargar, gagnslaus varaformaður sem fékk ekki náð fyrir augum flokksins. 

Endurnýjun í forystu Samfylkingar er alveg jafn mikilvæg og endurnýjun í öðrum flokkum, flokkurinn bar ábyrgð og þarf að axla hana. Það er ekki nóg að Björgvin fórni sér fleiri þurfa að viðurkenna mistök og læra af þeim.  

 


Áherslur frambjóðandans

Íslendingar í Evrópuskólann?

Núverandi þingmenn þurfa að axla ábyrgð og læra af reynslunni og reynslu annarra þjóða. Full aðild að Evrópusambandinu er eitt mikilvægasta skrefið sem Íslendingar geta stigið til að reisa við efnhags- og atvinnulíf í landinu og skapa stöðugleika.

Með ykkar stuðningi mun ég beita mér fyrir að:

·         umsvifalaust verði farið í viðræður um aðild að Evrópusambandinu,

·         verðtryggingin verði afnumin og gengið frá skuldbreytingum á gjaldeyrislánum,

·         stutt verði við uppbyggingu í ferðaþjónustu og þróun Vatnajökulsþjóðgarðs,

·         samgöngumál verði sett í forgang,

·         unnin verði samræmd atvinnu- og menntastefna fyrir kjördæmið,

·         lagðar verði niður stöður aðstoðarmanna þingmanna og leitað leiða til að þingmenn kjördæmisins geti stundað starf sitt innan þess og í samstarfi við íbúa,  

·         aðgengi allra að framhalds- og háskólanámi verði bætt með auknu samstarfi háskóla við framhaldsskóla, fræðslumiðstöðvar og þekkingarsetur,

·         Stjórnarskráin verði endurskoðuð utan þings og byggt á reynslu annrra þjóða.


Hvað er pólitík?

Ég hef verið að hugsa mikið um þessa spurningu undanfarið. Snýst pólitík um tengslanet og samstöðu ákveðins hóps eða snýst pólitík um lýðræðislega stefnumótun í átt að einhverju sem kalla mætti fyrirmyndasamfélag, þar sem eðli og eiginleikar eru mismunandi eftir einstaklingum?  Eftir að hafa fylgst með pólitískri umræðu í gegnum tíðina sem og svokölluðum "lobbyisma" til að koma ákveðnum málum í gegn þá hefur mér fundist að hið fyrrnefnda eigi fremur við. 

Það er kanski þess vegna sem manni finnst stundum að á Íslandi sé ávallt farin fjallabaksleið þegar aðrar greiðfærari leiðir eru opnar. Þannig hefur frjálshyggjan sem hefur verið við lýði hér í áratugi orðið til þess að idean um að "samkeppni" verði að vera grunnforsenda allrar þróunar bæði í einkageiranum og í opinbera geiranum.  Þessi leið hefur kostað okkur gríðalega fjármuni og nú er komið að skuldadögum. Stjórnvöld ákváðu að hleypa lífi í;

  • sjávarútveginn með frjálsu framsali aflaheimilda (nátttúruauðlynda þjóðarinnar sem kvótakóngar fengu á silfurfati og við eigum ekki lengur),
  • fjármálageiran með einkavæðingu bankanna sem við vitum öll hvernig fór.
  • heilbrigðisþjónustuna sem hefur m.a. orðið til þess að þeir sem veikastir eru bíða lengst eftir aðgerð þar sem þeir hafa ekki efni á að borga sérfræðingum fyrir aðgerðina á þeirra eigin skurðstofum. Sérfræðingar sem nóta bene vinna á mörgum stöðum, í háskóla, á sjúkrahúsi og á eigin stofum (og fá örugglega nánast full laun á öllum þeim stöðum).
  • menntakerfinu með því að styðja við bakið á frumkvöðlum í einkageiranum sem geta nú bæði nýtt sér að fullu framlög í nemendaígildum sem eru jafn há og ríkisháskólarnir fá, auk skólagjalda og framlaga atvinnulífsins. Hvergi í heiminum er menntakerfið jafn flókið og á Íslandi!

En ætlunin var ekki að vera neikvæð heldur finnst mér að verkefni framtíðarinnar séu einmitt að bæta úr þessu, greina og viðurkenna þau mistök sem gerð hafa verið. Við verðum að finna leið til að þróa kerfi sem eru bæði skilvirk og gefa kost á nýsköpun og stöðugri þróun. Þetta verður ekki gert með áherslu á samkeppni heldur með áherslu á samstarf ólíkra stofnanna og jafnvel sameiningu. Við verðum að láta af þeim leiða vana okkar að stofna stöðugt til nýrra stofnanna þegar við erum ósátt eða leið á þeim sem fyrir eru.

Ég er sannfærð um að við getum sparað í öllum þeim kerfum sem nefnd eru hér að ofan, við getum fækkað bönkum, opnað kvótakerfið upp þannig að það skapi fleiri störf og allir sitji við sama borð, við getum einfaldað menntakerfið t.d. með hliðsjón af því skipulagi sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar.

Eftir að hafa starfað í rúm 10 ár í tengslum við menntun, rannsóknir og nýsköpun sé ég margar leiðir til sparnaðar, aukins samstarfs og samræmdrar stefnumótunar. Til þess að slíkar leiðir séu færar þurfum við fyrst og fremst að byggja upp traust á milli stofnanna, sveitarfélaga, höfuðborgar og landsbyggðar og á milli atvinnlífs og hins opinbera. Nú er tækifærið, við þurfum að stokka upp og við verðum að líta á kerfin okkar og leita lausna og allir verða að koma að því borði.

Ef ég færi í pólitík, sem er ofarlega í mínum huga um þessar mundir, þá myndi ég vilja vinna að því að þróa lausnir og úrræði frekar en að eyða tíma mínum í að velta vöngum yfir því hvað Jóhanna sagði, hvað Davíð gerði og að ég eigi að fylgja einhverri flokksuppskrift og leiðtoga. Við þurfum ekki bara að láta af því að dýrka gullkálfinn við þurfum líka að láta af þeim ósið að treysta í blindni ákveðnum leiðtogum sem reynslan sýnir að ráða ekki einir og sér við þau verkefni sem við blasir að við þurfum að vinna í, saman. Það að vera jafnaðarmaður er ekki að fylgja línu og duttlungum Ingibjargar heldur að vilja vinna að þróun fyrirmyndarsamfélagsins (þíns) byggt á þekkingu þinni og reynslu og í sátt og samstarfi við aðra, hvar í flokki sem þeir starfa.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband