Færsluflokkur: Bloggar

Fjölkjarnasveitarfélagið Austurland

Þau miklu tíðindi gerðust á aðalfundi Sambands Austfirskra Sveitarfélaga á Seyðisfiðir 25. september að sveitarstjórnarmenn á Austurlandi samþykktu einróma að vinna að sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi í eitt sveitarfélag. Það er mikilvægt að sá einrómur sem  ríkti á aðalfundinum smitist  til íbúa í ólíkum samfélögum á Austurlandi. Það er mikilvægt að umræða um sameiningu fari fram ekki eingöngu í sveitarstjórnarpólitíkinni heldur einnig hjá íbúum sveitarfélaganna.

Undanfarin ár hefur byggðastefna á Íslandi verið mótuð í iðnaðarráðuneytinu af örfáum aðilum sem horft hafa til rannsókna prófessors Stefáns Ólafssonar um byggðaþróun og fólksflótta af landsbyggðinni.  Niðurstaða þeirra rannsókna var í stuttu máli sú að best væri fyrir stjórnvöld að velja ákveðin lífvænleg kjarnasvæði á landsbyggðinni til að efla og að þessi kjarnasvæði virkuðu þá sem nokkurskonar höfuðborgir fyrir ákveðin landssvæði.  Þessi hugmynd er í algerri andstöðu við þá byggðastefnu sem hafði um langt árabil verið mótuð á Austurlandi, þar sem hugmyndin var að ólíkir kjarnar og sveitir ynnu saman að því að byggja upp og veita íbúum nauðsynlega þjónustu. Í byggðastefnu austfirskra sveitarfélaga var hugmyndin að dreifa stjórnsýslu og dreifa valdi þannig að hvert svæði bæri vissa ábyrgð og hefði forystu í ákveðnum málum.

Með samneiningum sveitarfélaga undanfarin ár hafa orðið til tvö fremur stór sveitarfélög sem hafa unnið með öðrum minni á vettvangi SSA. Að mínu mati hefur þessi þróun að mörgu leiti grafið undir hugsjónum og hugmyndafræði sem skapaðist hafði í samstarfi sveitarfélaga á Austurlandi þar sem samfélögin komu saman að uppbyggingu stoðþjónustu sem og að stefnumótun varðandi þróun Austurlands varðandi atvinnulíf, menningu, menntun og velferð.  Með tilkomu tveggja sveitarfélaga hljóp ákveðinn veldisvöxtur í uppbyggingu á stjórnsýslu sveitarfélaganna, efasemdir vöknuðu um tilgang samstarfssins og samkeppni myndaðist um hvar væri höfuðstaður Austurlands væri staðsettur.

Höfuðborgarheilkenni er einkenni á svokallaðri 2007 byggðastefnu sem sett er fram til höfuðs því íbúalýðræði sem einkennir lítil samfélög. Það er mikilvægt að þegar farið verður í stefnumótun og umræður um sameinað Austurland þá verði byggt á þeim gildum og hugmyndafræði sem var við lýði við stofnun SSA.  Það er mikilvægt að sameiningin nú snúist ekki um áframhaldandi kjarnavæðinu Austurlands heldur um viðurkenningu á fjölbreyttni og karakter ólíkra samfélaga, kjarna og sveita á Austurlandi.

 

 


Stefnuræða Jóhönnu tímamótatal !

Með ræðu sinni færði Jóhanna evrópuumræðuna inn á nýtt plan þar sem lögð er áhersla á jákvæð viðhorf gagnvart vinum okkar í Evrópu fremur en að ala á ótta og öryggisleysi þjóðarinnar. Í stað þess að leggja höfuðáherslu á mikilvægi evrunnar fyrir Íslendinga hóf Jóhann umræðu um önnur svið evrópusamstarfsins og þau tækifæri sem í því liggja. Íslendingar hafa aldrei gifst til fjár og allra síst núna þegar trúin á kapítalið er í sögulegu lágmarki. Það eru svo miklu fleiri og merkilegri fletir á aðild Íslendinga á Evrópusambandinu og slík aðild verður aldrei að veruleika nema að Íslendingar fari inn í sambandið með beint bak, bein í nefinu og fullvissu um að sambandið muni endast, blómstra og færa þeim farsæld í framtíðinni. 

Það er því mikilvægt að alþingismenn fylgi nú samvisku sinni þegar kemur að aðildarviðræður við Evrópusambandið og að þingið fari að stunda samræðustjórnmál í stað átakastjórnmála eða hjarðhegðunar sem væri líklega réttnefni á þeirri tegund af pólitík. Það er ákall þjóðarinnar nú til víðsýnna framsóknarmanna, sjálfstæðismanna, borgaranna og meira að segja vinstri grænna að þeir standi á bak við aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.  


mbl.is Leiði mótun sjávarútvegsstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnaðarmenskan – hinn gullni meðalvegur?

Síðasta öld og upphafið á þessari sem við nú lifum á hefur einkennst öðru fremur af því að mannfólkið hefur verið að prófa hinar ýmsu gerðir hugmyndakerfa. Stjórnmálin hafa þróast frá lýðræði til konungsdóms, til einræðis, til kommúnisma og til kapítalismans sem hefur verið allsráðandi síðustu áratugi.  Þegar sjálfstæðismenn ræða grunngildi sín í pólitík, varpa þeir  gjarnan fram þeirri fullyrðingu að kraftur samfélagsins felist fyrst í frumkvæði einstaklingsins og að frelsi og samkeppni sé forsenda þess að vel takist til í öllum rekstri hvort sem er stofnanna eða fyrirtækja. Þessi skilningur byggist á því að einstaklingum sé betur treystandi til að standa vörð um hagsmuni ríkisina en stjórnvöldum. Hugmyndafræði sjálfstæðimanna hefur kostað samfélagið mikið, orðið til þess að stofnanir sem áður voru reknar af ríkinu voru einkavæddar í nafni frjálshyggjunnar. Það sem gerðist var að ríkisfjármál þöndust út, oft vegna þess að mun dýrara var fyrir ríkið að kaupa þjónustu af einkaaðilum en sjálfu sér eða kostnaði var velt yfir á þegna ríkisins og þá helst þá sem minnst máttu sín, samanber þróun heilbrigðisþjónustu.  Á meðan kommúnisminn boðaði sameign allra eða öllu heldur ríkiseign á öllum samfélagsgæðum þá byggir jafnaðarmennskan bæði á trú að frumkvæði einstaklingsins sem og mikilvægi samfélagsins sem velferðarkerfis sem tryggir jöfn tækifæri til samfélagsþáttöku.    

Að þessu sögðu þá má segja að Jafnaðarmennskan mætti skilgreina sem meðallaga tveggja lasta,  þar sem lestirnir snúast annars vegar að kommúnisma (þar sem ríkisafskiptin eru of mikil) og hinsvegar um kapítalisma/frjálshyggju (þar sem þessi afskipti og ábyrgð er of lítil). Kommúnisma þar sem ríkið ofmetur hlutverk sitt gagnvart þegnum sínum, vill eiga allt og stjórna öllu og þar sem þetta mikla vald spillir embættismönnum ríkisins. Kapítalisma þar hlutverk einstaklinganna og fjármagnsins er ofmetið sem verður til þess að einstaklingarnir sem treyst er fyrir stofnunum eða fjármunum ríkisins fá að leika sér frjálsir af afskiptum ríkisins en með allar eigur þess undir.  Þjóðarsál Íslendinga hefur oft sveiflast öfganna á milli, það er spurning hvort við getum nú ratað meðalveginn? Er kapítalisminn ekki fallinn?  Þess vegna er mikilvægt að jafnaðarmenn sigri í næstu kosningum og að við náum að endurskilgreina hlutverk ríkisvaldsins en um leið hvetja til nýsköpunar og frumkvæðis allar einstaklinga, ekki fárra útvaldra. 

Það skiptir líka höfuðmáli að allir taki þátt í uppbyggingu samfélagsins, embættismenn, ríkisstarfsmenn, frumkvöðlar og leiðtogar og að við leggjumst öll á árarnar til að koma okkur upp úr kreppudalnum.  Til þess að svo verði þá þurfum við líka öll að stunda pólitík og ekki treysta fáum til að fara með valdið.  Það er vinna að ástunda lýðræði og viðhalda því. Við megum ekki láta kreppuna hafa þau áhrif að við hættum að hafa áhuga á stjórnmálum heldur þvert á móti eigum við að veita stjórnmálamönnum aðhald.


Kosningarnar í dag af hverju erum við ekki að kjósa um ESB?

Ég hef  verið mjög hugsi yfir þróun mála í kosningabaráttunni og þá sérstaklega málflutning Vinstri Grænna, flokk sem mér hefur hingað til þótt mikið til koma. Þeir standa nú þversum í vegi fyrir því að við getum farið í aðildarviðræður við Evrópusambandið, verkefni sem fyrir mér og mörgum öðrum er forgangsmál í efnahagslegri og stórnsýslulegri endurreisn Íslands.

Framsóknarmenn, stefna sem byggir á jákvæðum grunni, hafa líka brugðist þjóðinni í Evrópumálunum, þeir samþykktu á landsfundi sínum að fara í aðildarviðræður en hafa svo ekkert talað um þessi mál síðan, heldur lagt áherslu á hókus, pókus "lausnir" í Efnahagsmálum. Hvernig stendur á þessu? 

Sjálfstæðismenn hættu við að vera Evrópusinnar og eru nú áttavilltir og forystusauðirnir vafra um og tala gegn eigin sannfæringu í málinu til að styggja ekki þann harða og oft á tíðum afturhaldssama hóp sem eftir varð í sjálfstæðisflokknum eftir hrunið.  Á sama tíma mælir jafnaðarkonan Ólöf Norðdal fyrir því að við förum í aðildarviðræður ekki bara til að taka upp Evru heldur til að vera þjóð meðal þjóða og tapa ekki endanlega ærunni gagnvart nágrönnum okkar og vinum í Evrópu (við getum ekki staðið ein - líkt og Samfylkingin hefur verið að segja í á annan áratug).

Kosningabaráttan var leiðinleg afþví að hún snérist ekki um það sem máli skiptir, endurreisn og lausnir, heldur um spillingu, mútur og ódýrar "patent-lausnir". Miðað við þessa baráttu og vonandi stórsigur Samfylkingarinnar þá væri mín óskaríkisstjórn (Ísland í samfélagi þjóðanna og endurreisn atvinnulífsins) Samfylkingin, Borgarhreyfing og Framsókn með Samfylkinguna í forsæti (einsog ég skil málið þá eru þetta allt flokkar sem byggja á jafnaðarmennsku).

Gleðilegan kosningadag!

 

 


Fagmennska fremur en forn hugmyndafræði ?

Í sínum mesta einfaldleika snúast stjórnmál og val fólks á stjórnmálaflokkum um ákveðna lífssýn:

  • Sjálfsstæðismenn vantreysta ríkisbákninu, treysta á einstaklingsframtakið (sjálfstæðið) og lengst til hægri er fjálshyggja.
  • Samfylkingarmenn telja hlutverk ríkisvaldsins að jafna kjör fólks í landinu og þeir sem lengst vilja ganga hallast að kommúnisma.
  • Framsókn byggir á bændasamfélaginu, samvinnufélögunum og samstarfi og samvinnu.
  • Vinstri grænir sem byggja á hugmyndum um umhverfisvernd hin síðustu ár en voru samtök sem stofnuð voru sem mótframboð við Samfylkinguna á sínum tíma, gegn kratavæðingunni.

Hafa e.t.v. allar hafa þessar stefnur orðið gjaldþrota og hvar eru þær skilgreindar í raun? Engin þeirra er lausnin á vandanum sem við erum nú í, sá vandi var mótaður af frjálshyggju, studdur af spilltum fulltrúum samvinnuhugsjónarinnar og valdaþyrstum jafnaðarmönnum, á meðan voru Vinstri Grænir fúlir á móti. 

Breytingar á hinu opinbera kerfi síðustu ár hafa falist í einkavæðingu samhliða auknum kostnaði af opinberri þjónustu, auk þess sem aukinn kostnaður hefur lent á neytandanum. Samkeppni hefur verið lykilhugtak, auka þarf samkeppni í heilbrigðisþjónustu, menntun og stoðkerfinu, samkeppni hefur verið talin forsenda nýsköpunar ekki bara í atvinnulífinu heldur í öllum geirum samfélagsins, þessi þróun hefur leitt til tvíverknaðar í (opinberri ) þjónustu hvort sem hún er rekin af opinberum aðilum eða einkaaðilum. Í einkavæðingu fjármálageirans var ábyrgðin á hendi ríkisins á meðan framkvæmdavaldið var á hendi atvinnulífsins. Í þessu einkavæðingarferli hefur ekki verið unnið faglega, hvorki með grasrót né fagfólki í viðkomandi greinum. Allt hefur verið gert í hraði en án fyrirhyggju, allt hefur snúist um arðsemi - hagvöxt, það að fá sem mest og sem fyrst. Hugmyndir um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð hafa verið smættaðar með upptöku þeirra í hátíðarræðum á tillitdögum.

Ný stjórnmál þurfa að snúast um fagmennsku fremur en hugmyndafræði. Til að styrkja lýðræðið þarf að tryggja áhrif bæði grasrótarinnar og fagaðila að stefnumótun í ólíkum greinum. Vissulega kallar slíkt samráð á ákveðið skrifræði og utanumhald en það er e.t.v. betra en stjórnleysi, sýndarmennska og fyrirgreiðslupólitík. Reglan um framgang nýrra hugmynda er að til að þær fái brautargengi er nauðsynlegt að þekkja vel til ráðherra, þingmanna og vera góður liðsmaður í stjórnmálaflokki. Við þurfum aga, skipulag, þekkingu og reglugerðir til að endurskipuleggja stjórnkerfið og umhverfi atvinnulífsins á Íslandi. Það hefur sýnt sig að skortur á reglugerðum og eftirliti hefur orðið til þess að ekkert sem ekki var bannað var gert, hvort sem það var siðlaust eða ekki. Fagleg vinnubrögð kalla líka á jöfnuð, sanngjarnari mennferð mála og verkefna.

Í kreppunni er mikilvægt að skilgreina grunnþjónustu hins opinbera (hið íslenska velferðarkerfi) því það er ljóst að eftirspurn eftir þeirri þjónustu á bara eftir að aukast, jafnhliða þarf að draga úr kostnaði og tryggja endurreisn atvinnulífsins, eða hvað?

 

 


Takk fyrir mig !

Til þeirra sem studdu mig í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norð-Austur kjördæmi. Alls kusu 1245 mig í 1-8 sæti í prófkjörinu eða um helmingur allra sem kaus. Þessum aðilum sem og þeim sem studdu mig og hvöttu áfram til að taka þátt vil ég þakka. Grin

Þátttaka í prófkjöri er góður skóli sérstaklega þegar maður ákveður þátttöku og reynir að afla fylgi á tveimur vikum meðfram vinnu, námi og fjölskyldu (sem vissulega hefur haft lítið af mér að segja þennan tíma). Mér tókst að finna tæplega þrjá daga á þessum tíma til að fara um og hitta fólk og af því ferðalagi lærði ég mest. Samt sem áður hef ég ábyggilega ekki hitt nema um 200 af þeim aðilum sem kusu mig, þannig að hinir hafa væntanlega metið mig útfrá þeim 150 orðum sem birt voru í kosningaritinu (takk fyrir það).

Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið of sátt þegar úrslitin voru gerð kunn, enda stefnan sett á 2.-4. sæti þá sá ég eftir að runnið var af mér keppnisskapið að í raun var um ágætis árangur að ræða. Kona sem skráði sig í flokkinn í haust, hefur aldrei mætt á Landsfund og lítið sem engan þátt tekið í pólitísku starfi hingað til, náði samt þessum árangri. Svo voru líka 4 konur á 8 manna lista (hefði auðveldlega verið hægt að búa til fléttulista!) sem er frábært, sérstaklega í þessu kjördæmi. Áfram stelpur! Smile

Ég fór í pólitík af því ég var pirruð og reið út í pólitíkina og í stað þess að gefa hana upp á bátinn alfarið og beita mér að uppbyggilegri hlutum þá ákvað ég að reyna að hafa áhrif, vonandi til hins betra. Vinir mínir voru farnir að stríða mér af því að ég gengi undir titlinum reiða konan enda farin að labba út af opnum stjórnmálafundum og fundum um ónýta byggðastefnu iðnaðarráðuneytisins (eitthvað sem ég ætla að ræða við Össur á næsta landsfundi). Fyrir þá sem kusu mig þá lofa ég að vera vakandi, gagnrýnin, hugmyndarík og síðast en ekki síst námsfús og auðmjúk (þ.e. gagnvart íbúum kjördæmisins ekki stjórnmálamönnum, enda ekki á þá treystandi) á næstu misserum í kosningabaráttu Samfylkingarinnar.

 Takk fyrir mig !  Stefanía


Framtíð byggð á trausti og samstöðu

Undanfarina viku hef ég verið að fara um kjördæmið og spjalla við fólk. Í þessum heimsóknum hef ég meðal annars spjallað við útgerðarmenn bæði á Fáskrúðsfirði og Dalvík. Í báðum samtölum kom fram að á tímum einkavæðingar hefði miðstýring og uppbygging á opinberum og einkareknum eftirlitsiðnaði stóraukist. Áherslan hafi farið frá því að eftirlit hafi verið framkvæmt í samstarfi við útgerðarmenn yfir í að hlutverk umræddra eftirlitsaðila væri orðnir að hálfgerðum CIA mönnum. Umræddir útgerðarmenn voru með margar góðar hugmyndir um hvernig mætti breyta þessu kerfi til betri vegar og í samstarfi við iðnaðinn, byggt á trausti fremur en tortryggni. Fyrir mér var þessi umræða enn ein sönnunin fyrir því að við þurfum að fara í gegnum öll okkar samfélagskerfi og fara í alhliða endurskoðun á þeim opinberu og einkavæddu kerfum sem stjórnvöld hafa verið að smíða undanfarin ár í hinum ýmsu atvinnu- og verlferðarmálum. 

Við hjónin fórum saman í heimsóknir á Dalvík enda þekkir Gestur (Gestur Helgason) vel til í bænum en það sem mér fannst mest áberandi á Dalvík var hve mikil bjartsýni ríkti um komandi tíð. Þar koma fram að mikilvægasta væri að minni samfélög fengju að vera í friði með sitt atvinnulíf og uppbyggingu þess en undanfarin ár hafi byggðastefna á Íslandi í raun falist í forræðishyggju, frjálsu framsali aflaheimilda og þeirri tálsýn að best væri að búa í borginni.

Ég er sannfærð um að líkt og 20. öldin var tími borganna þá verður 21. öldin tími hinna dreifðu byggða. Jöfn/janfnari búseta í landinu er forsenda þess að hér skapist öflug ferðaþjónusta auk þess sem lífskjör í 2000 manna byggðarlagi eru mun betri en í 200.000 manna byggðarlagi. Fólk líkt og aðrar lífverur þarf pláss til að þroskast og dafna eðlilega, við þurfum súrefni og samfélag þar sem fólk lítur til með hvort öðru og stendur saman að atvinnuuppbyggingu og nýsköpun.

 


Dyggðin - Að iðrast og læra af reynslunni

Samkvæmt Aristótelesi heitnum þá er dyggð meðallag tveggja lasta í lífi mannsins. Ari tekur sérstaklega fyrir viðhorf mannsins til eigin yfirsjóna þar sem lestirnir eru kæruleysi/samviskulaus undansláttur (skortur á dyggð) og krónísk sektarkenns/skömm  (skefjaleysi) á meðan dyggðin felst í iðrun, vilji til að læra af reynslunni og sjálfsfyrirgefning (meðalhóf).

Mér finnst sem íslenskir stjórnmálamenn og aðrir ráðamenn hafi ekki enn til að bera þá auðmýkt sem nauðsynleg er til að læra af reynslunni, það gerir menn að mönnum.

Það var t.d. mjög athyglisvert að heyra í Geir og Jóhönnu eftir niðurstöður síðustu skoðanakannanna. Það er náttúrulega ekki Geir að þakka að sjálfstæðisflokkurinn er að rétta úr kútnum heldur er það grasrót Sjálfstæðisflokksins að þakka sem hafði það hugrekki að horfast í augu við raunveruleikann og gefa út skýrslu um mistakasögu flokksins (sem endurspeglaði að sjálfsögðu ekki afstöðu sannra sjálfstæðismanna - eða hvað? Fékk fólkið í flokknum e.t.v. trú á lýðræði innan hans og endurnýjun?). Á sama hátt þá er það Ingibjörgu að þakka að fylgi Samfylkingarinnar er að minnka (því að fólk í hennar flokki og þeir sem höfðu hugsað sér að kjósa fylkinguna fremur en Sjálfstæðisflokkinn hættu snöggvast við þegar flokkseigendaklíka raðaði í sætin í Reykjavík (hroki?) og VonarDagur hætti við að stugga við formanninum).

Ég held að í grunnin séu bæði Geir og Ingibjörg gott fólk en þau eru ekki alveg að skilja stöðuna. Ég sé ekki betur en að fólkið í landinu og í grasrót beggja hreyfinga sé búin að segja sitt með búsáhöldum og skýrsluskrifum. Það er ekkert sem segir að Geir og Ingibjörg eigi ekki afturkvæmt í stjórnmálin en það er hinsvegar þannig að þegar þú verður gjaldþrota þá þarftu að leggja niður fyrri störf, hlaða batteríin, læra af reynslunni og koma síðan sterkur inn í aðra umferð. Enginn verður óbarinn biskup. Það sama má segja um okkar ágæta forseta sem gæti sparað þjóðinni umtalsvert fé við það að hætta og þeim fjármunum sem nú er varið í það embætti mætti verja til þess að kjósa valinn þverpólitískan hóp úr öllum kjördæmum (karl og kona til skiptist) til að endurskoða stjórnarskránna og leggja grunn að nýju lýðræði á Íslandi. Hættum öllum óþarfa og prjáli, höfum hugrekki til að breyta þinginu, stjórnarskránni og embættismannaveldinu.

Annars leiðist mér að vera stöðugt að pæla í sálarlífi okkar ágætu stjórnmálamanna en það skiptir máli nú líkt og í öðrum gjaldþrotamálum að framkvæmdastjórarnir víki þó hinn almenni starfsmaður haldi áfram, þannig að þekkingin af rekstrinum haldist innan fyrirtækisins. Mér finnst samt einsog hinn almenni starfsmaður sé að víkja (Lúðvík, Björgvin, Valgerður o.fl. Að vísu enginn sjálfstæðismaður)  á meðan framkvæmdastjórarnir sitja áfram í sínum sætum eða láti af störfum án iðrunar. Við þurfum blöndu af reyndu og óreyndu fólki á þing í vor og við þurfum á því að halda að fólkið í landinu fái aftur trú á stjórnmálunum og taki virkan þátt í þeim.

 

 


Á Samfylkingin að ganga bundin eða óbundin til kosninga?

Það eru margir sem vilja sjá kosningabandalag Vinstri Grænna og Samfylkingar (jafnvel þannig að Framsókn fylgi með, þó ekki séu allir sáttir við það) þannig að fólk viti hvað það er að kjósa. Ég hef dálitlar áhyggjur af slíkum bandalagshugmyndum þar sem samningaviðræður við ESB eru það sem mér finnst vera stærsta kosningamálið hér á landi samhliða því sem endurnýjun eigi sér stað í öllum flokkum. Mér finnst út í hött að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort Ísland eigi að taka upp viðræður, slík ákvörðun yrði ávallt óupplýst og byggð á mjög óupplýstri umræðu um ESB og því að við töpum fullveldinu.

Það er gott fólk í öllum flokkum og það er undiralda í öllum flokkum, fyrirgreiðslupólitík tíðkast alls staðar og við sem höfðum misst trúnna á stjórnmálin erum að bjóða okkur fram í öllum flokkum. Ég trúi því að Samfylkingin eigi að ganga óbundinn, endurnýjuð og sterk til næstu kosninga. Best væri ef Framsókn myndi einfaldlega ganga í Samfylkinguna líkt og Íslandshreyfingin gerði nú á dögunum, það er nánast enginn skoðanamunur á þessum flokkum - einnig gæti verið um samruna að ræða í einn stóran og öflugan Jafnaðarmannaflokk.  En líklega verður ekki af þeim draumi mínum, til margra ára, í bráð.

Samfylkingin getur unnið stórsigur í næstu kosningum undir forystu Jóhönnu og með uppstokkun í forystu flokksins. Flokkurinn verður að láta það ráðast við hverja verður samið eftir kosningar, ef Vinstri Grænir hafa það vald að svæfa Evrópusambandsumræðuna endalaust þá höfum við ekki efni á því.


Framboðsfundir og fyrirtækjaheimsóknir

Um helgina fóru fram kynningafundir frambjóðenda, fyrsti fundurinn var óformlegur og var á Dalvík, sá næsti var á Akureyri og sá þriðji á Egilsstöðum. Vel var mætt á Dalvík og þar fóru fram fjörlegar umræðu þar sem bæði frambjóðendur og Dalvíkurbúar ræddu málin. Fundurinn á Akureyri var ágætur en mér fannst vanta uppá samræðulistina og sama má segja um fundinn á Egilsstöðum sem þó var mjög vel mætt á. Það að ræða hlutina varpar nýju ljósi á áherslumálin og gefur frambjóðendum tækifæri til að rökstyðja skoðun sína. Samræður við fundargesti eftir fundinn voru það sem gaf þeim gildi en þær urðu ekki til þess að frambjóðendur gætu rökrætt áherslur sína og áherslumun, sem er mikilvægt.

Í dag fór ég í fyrirtækjaheimsóknir í Fjarðabyggð með vinkonu minni Gullu. Við heimsóttum Loðnuvinnsluna og grunnskólann á Fáskrúðsfirði, Nótaverksmiðjuna á Eskifirði, Launafl, Glitnir, KK-matvæli, grunnskólann og leikskólann á Reyðarfirði, Sparisjóðinn, Olíssjoppuna, bæjarskrifstofurnar, Námsverið á Reyðafirði, Mannvit og Running.  Ég vil þakka fólki fyrir að taka á móti okkur og ég varð margs vísari.

Fólk er orðið þreytt á pólitík, það treystir ekki pólitíkusum, þá eru margir efins um ágæti Evrópusambandsins og að lokum þá er fólk orðið langeygt eftir breytingum og því að stjórnmálamenn axli ábyrgð og margir beindu spjótum sínum sérstaklega að Ingibjörgu Sólrúnu. Eitt áttu viðmælendur okkar sameiginlegt og virðist þá ekki skipta máli hvaða flokki það fylgir, það treystir Jóhönnu best þeirra stjórnmálamanna sem eru í framlínunni. Ég get tekið undir allt af ofangreindu, ég hef í raun verið reið og ráðvillt frá því í lok september. Þrátt fyrir að ég hafi líka verið búin að fá mig fullsadda af þennslunni þá blöskrar mér sá ruddaskapur og óheilindi sem viðhafður hefur verið af útrásarvíkingum og ráðamönnum síðusta áratug.

Varðandi stjórnmálin þá finnst mér þau einfaldlega ekki hafa verið að virka, a.m.k. ekki hjá Samfylkingunni í þessu kjördæmi hingað til.  Það hefur ekki verið nein samræða við fólkið í kjördæminu, fundir Samfylkingarinnar eru oftast lokaðir og ef þeir eru opnir þá mæta fáir. Framsókn, Sjálfstæðis og Vinstri Grænir hafa staðið sig mun betur hingað til. Við þurfum að gera betur og opið prófkjör er fyrsta skrefið í rétta átt.....  Stjórnmálin eiga að snúast um samræður (dialogue).

Til þess að fólk fái trú á stjórnmálum þá þarf fólk að taka þátt í stjórnmálum. Í starfi mínu fyrir Þróunarfélagið og Þekkingarnetið hef ég tekið mun virkari þátt í stjórnmálum en á þeim stutta pólitíska ferli sem ég á að baki. Í þeim störfum snýst allt um að skilgreina þarfir, leita hugmynda til að mæta þeim, skilgreina verkefni og taka ákvörðun um að ráðast í ákveðin verkefni, sem síðan þarf að fjármagna með einhverjum hætti.  Stjórnmál framtíðarinnar, að mínu mati, munu snúast um nákvæmlega þetta ferli, stjórnmálamenn þurfa að vera virkir í því að leita hugmynda, þróa verkefni/ fyrirtæki, vinna að fjármögnun þeirra með einhverjum hætti. Einhver sagði "Neyðin kennir naktri konu að spinna" og stjórnmálamönnum að vinna!  Eða hvað? 

Það er ekki af neinni kurteisi sem ég fór í framboð, það er einmitt vegna þess að ég er ekki sátt við núverandi ástand, mér leiðist sá hroki og þau óheilindi sem hafa verið allsráðandi. Eflaust verður komandi tíð erfið og lítið að fjármagni til að vinna með en ég held að við komumst upp úr þessu, eilítið löskuð, hógværari, heimsvanari og með heilsteyptari sjálfsmynd en hingað til.

Mig langar að enda á hugleiðingu frá Gunnari Hersveini heimspekingi um vináttuna: "Hver maður er einn stakur hugur og því má segja að maðurinn sé alltaf einn. Það kemur þó ekki í veg fyrir vináttu heldur glæðir hana því að vinir gera líf hvers og eins bærilegt. Einangraður maður er aftur á móti takmarkaður maður, hann getur ekki speglað sjálfan sig í öðrum. Vinalaus maður hefur óljósar hugmyndir um sjálfan sig, janfvel þótt hann sé innan um aðra, hann getur ekki fullþroskað tilfinningar sínar og hegðun. Vinur fyllir hins vegar lífið ánægju og skapar möguleika á sjálfsþekkingu... Vinátta felst í því að gera eitthvað saman, vinna, skemmta sér og leysa vandamál. Það vekur vonir um framtíðina að gera eitthvað ánægjulegt saman og skapa góðar minningar. "

Við getum stigið fyrsta skerfið í gagnkvæmri vinnáttu okkar við aðrar Evrópuþjóðir, það skref þarf að taka af ákveðinni auðmýkt en ekki þeim hroka sem einkennt hefur þá sem farið hafa fyrir þjóðinni hingað til......  Án vinskapar við Evrópusambandið gæti Ísland átt litla möguleika á að rísa úr öskustónni, byggja upp eigin sjáflsmynd og læra af reynslunni. Við getum ekki endalaust speglað okkur í sjálfum okkur með það að leiðarljósi að við þurfum að græða á öllum okkar samböndum. Aðild að Evrópusambandinu er ekki reikningsdæmi í mínum huga heldur spurning um samskipti, samstarf, þróun og uppbyggingu á Evrópu sem bandalagi lýðræðisríkja. 

Ég get fyllilega skilið áhyggjur af landbúnaði, skrifræði og sjávarútvegi og ef okkur verða settir afarkostir sem við getum ekki gengið að þá að sjálfsögðu segjum við nei ....  Þannig að það er allt að vinna og engu að tapa á láta reyna á velvild og samstarfsvilja okkar ágætu nágranna.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband