9.2.2009 | 18:08
Hvað er pólitík?
Ég hef verið að hugsa mikið um þessa spurningu undanfarið. Snýst pólitík um tengslanet og samstöðu ákveðins hóps eða snýst pólitík um lýðræðislega stefnumótun í átt að einhverju sem kalla mætti fyrirmyndasamfélag, þar sem eðli og eiginleikar eru mismunandi eftir einstaklingum? Eftir að hafa fylgst með pólitískri umræðu í gegnum tíðina sem og svokölluðum "lobbyisma" til að koma ákveðnum málum í gegn þá hefur mér fundist að hið fyrrnefnda eigi fremur við.
Það er kanski þess vegna sem manni finnst stundum að á Íslandi sé ávallt farin fjallabaksleið þegar aðrar greiðfærari leiðir eru opnar. Þannig hefur frjálshyggjan sem hefur verið við lýði hér í áratugi orðið til þess að idean um að "samkeppni" verði að vera grunnforsenda allrar þróunar bæði í einkageiranum og í opinbera geiranum. Þessi leið hefur kostað okkur gríðalega fjármuni og nú er komið að skuldadögum. Stjórnvöld ákváðu að hleypa lífi í;
- sjávarútveginn með frjálsu framsali aflaheimilda (nátttúruauðlynda þjóðarinnar sem kvótakóngar fengu á silfurfati og við eigum ekki lengur),
- fjármálageiran með einkavæðingu bankanna sem við vitum öll hvernig fór.
- heilbrigðisþjónustuna sem hefur m.a. orðið til þess að þeir sem veikastir eru bíða lengst eftir aðgerð þar sem þeir hafa ekki efni á að borga sérfræðingum fyrir aðgerðina á þeirra eigin skurðstofum. Sérfræðingar sem nóta bene vinna á mörgum stöðum, í háskóla, á sjúkrahúsi og á eigin stofum (og fá örugglega nánast full laun á öllum þeim stöðum).
- menntakerfinu með því að styðja við bakið á frumkvöðlum í einkageiranum sem geta nú bæði nýtt sér að fullu framlög í nemendaígildum sem eru jafn há og ríkisháskólarnir fá, auk skólagjalda og framlaga atvinnulífsins. Hvergi í heiminum er menntakerfið jafn flókið og á Íslandi!
En ætlunin var ekki að vera neikvæð heldur finnst mér að verkefni framtíðarinnar séu einmitt að bæta úr þessu, greina og viðurkenna þau mistök sem gerð hafa verið. Við verðum að finna leið til að þróa kerfi sem eru bæði skilvirk og gefa kost á nýsköpun og stöðugri þróun. Þetta verður ekki gert með áherslu á samkeppni heldur með áherslu á samstarf ólíkra stofnanna og jafnvel sameiningu. Við verðum að láta af þeim leiða vana okkar að stofna stöðugt til nýrra stofnanna þegar við erum ósátt eða leið á þeim sem fyrir eru.
Ég er sannfærð um að við getum sparað í öllum þeim kerfum sem nefnd eru hér að ofan, við getum fækkað bönkum, opnað kvótakerfið upp þannig að það skapi fleiri störf og allir sitji við sama borð, við getum einfaldað menntakerfið t.d. með hliðsjón af því skipulagi sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar.
Eftir að hafa starfað í rúm 10 ár í tengslum við menntun, rannsóknir og nýsköpun sé ég margar leiðir til sparnaðar, aukins samstarfs og samræmdrar stefnumótunar. Til þess að slíkar leiðir séu færar þurfum við fyrst og fremst að byggja upp traust á milli stofnanna, sveitarfélaga, höfuðborgar og landsbyggðar og á milli atvinnlífs og hins opinbera. Nú er tækifærið, við þurfum að stokka upp og við verðum að líta á kerfin okkar og leita lausna og allir verða að koma að því borði.
Ef ég færi í pólitík, sem er ofarlega í mínum huga um þessar mundir, þá myndi ég vilja vinna að því að þróa lausnir og úrræði frekar en að eyða tíma mínum í að velta vöngum yfir því hvað Jóhanna sagði, hvað Davíð gerði og að ég eigi að fylgja einhverri flokksuppskrift og leiðtoga. Við þurfum ekki bara að láta af því að dýrka gullkálfinn við þurfum líka að láta af þeim ósið að treysta í blindni ákveðnum leiðtogum sem reynslan sýnir að ráða ekki einir og sér við þau verkefni sem við blasir að við þurfum að vinna í, saman. Það að vera jafnaðarmaður er ekki að fylgja línu og duttlungum Ingibjargar heldur að vilja vinna að þróun fyrirmyndarsamfélagsins (þíns) byggt á þekkingu þinni og reynslu og í sátt og samstarfi við aðra, hvar í flokki sem þeir starfa.
Athugasemdir
Mjög fín færsla hjá þér Stefanía - er alveg sammála þér.
Ömurlegt að fólk rífist og rífist í stað þess að vinna að þeim verkefnum sem þarf að vinna.
Jónína Rós Guðmundsdóttir, 10.2.2009 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.