1.3.2009 | 11:40
Framboðsfundur á Egilsstöðum
Kæru Austfirðingar Þegar ég flutti austur hóf ég störf hjá Þróunarfélagi Austurlands og var mitt fyrsta verkefni að vinna stefnumótun menntamálaráðuneytisins um stofnun Þekkingarnets Austurlands, sem stofnað var á grunni Fræðslunets Austurlands. Niðurstaða þeirrar vinnu var breytt hlutverk sem fólst í að auka áherslu á háskólanám og rannsóknir og kanna möguleika á að byggja upp nærþjónustuna víðar á Austurlandi. Í kjölfarið voru settar upp starfsstöðvar á Hornafirði og Neskaupsstað.
Eitt stærsta verkefni mitt hjá ÞFA var uppbyggingu á Vaxtarsamningi Austurlands en alls tóku 62 aðilar þátt í Vaxtarsamningnum, allir háskólar landsins, helstu rannsókna- og menningastofnanir landsins, stofnanir, fyrirtæki og framhaldsskólar á Austurlandi. Yfir 20 störf hafa skapast í tengslum við VAXA.
Eftir tveggja ára starf hjá ÞFA tók ég við framkvæmdastjórastarfi hjá Þekkingarneti Austurlands. Í minni tíð sem stjórnandi hafa, í samstarfi við sveitarfélögin, verið opnaðar starfsstöðvar á Vopnafirði og Reyðarfirði. Auk þess hafa fjarfunda- og námsver hafa verið opnuð á Seyðisfirði, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði og fyrirhugað er námsver á Borgarfirði, áður voru slík ver á Fáskrúðsfirði, Djúpavogi og Vopnafirði. Þá hefur ÞNA unnið að því að auka samstarf fræðimanna og sérfræðinga á Austurlandi, sett upp rannsóknabókasafn Austurlands og vinnur að gagnagrunni um rannsóknir og sérfræðinga á Austurlandi.
Auk þess að vinna að aukinni nærþjónustu hefur Þekkingarnetið verið stöðugt virkari þátttakandi í Evrópusamstarfi og má þar nefna að við tökum þátt í stóru Evrópuverkefni í upplýsingatækniáætluninni um námsráðgjöf í gegnum netið og fengum tæplega 19 milljón króna stuðning frá menntaáætlun EU til að vinna að hugmyndum um Netháskóla Íslands. ÞNA hefur komið að aðgerðum sem farið hefur verið í hér á Austurlandi í tengslum við efnahagshrunið má þar nefna opnun miðstöðvar atvinnuleitenda á Héraði og fyrirhugað átaksverkefni í Fjarðabyggð sem vistað verður í starfsstöð ÞNA á Reyðarfirði. Þá höfum við tekið að okkur að skipuleggja námsúrræði, náms- og starfsráðgjöf fyrir atvinnuleitendur fyrir hönd Vinnumálastofnunar.
Byggt á reynslu minni af Evrópusamstarfi, 6 ára starfsferli mínum hjá Rannsóknaþjónustu HÍ, þá tel ég að nú sem aldrei fyrr sé mikilvægt að tvinna saman atvinnulíf og menntun og með því innleiða norræna og Evrópska hefð fyrir starfsmenntun og vinnustaðanámi og hef síðustu misseri unnið að umsóknum um þekkingaryfirfærslu og samstarfsverkefni ESB sem miða að þróun slíkra verkefna í samstarfi við Finna, Norðmenn og Dani.
Ég vil að Austfirðingar meti mig af mínum störfum í fjórðungnum og tel mig hafa unnið að hagsmunum heildarinnar. Ég hef beitt mér fyrir því að skoðaðir verði möguleikar á að sameina og samræma stoðkerfi atvinnulífsins á Austurlandi þannig að það þjóni íbúum sem best og að skoða verði í fullri alvöru að sameina gamla kjördæmið í eitt sveitarfélag. Það er skoðun mín að í þessu kjördæmi eigi að byggja upp samræmda atvinnu- og menntastefnu og að kjördæmið eigi að hafa sjálfræði í sem flestum málum. Slík stefnumótun er það sem gerist og gengur í EU en kjarnin í þeirri hugmynd er að byggðamál eru ekki vandamál heldur vörður í vexti ólíkra svæða.
Það hefur ekki farið fram hjá mér að óvíða eru samgöngur erfiðari en á Austurlandi og að flutningskostnaður getur tvöfaldað kostnaðinn við rúm frá IKEA. Vegna vinnu minnar hef ég marga fundi sótt á öllum tímum árs og þó að sú reynsla hafi vissulega gert mig að betri bílstjóra þá hefur hún einnig sannfært mig enn frekar um að eigum við að laða til okkar fólk af mölinni þá þurfum við bættar samgöngur og kanski þurfum við einmitt að fá fólk af mölinni austur til að draumur Guðrúnar Katrínar og fleiri um Samgöng verði að veruleika. Nú er tækifæri til að fara í slíkar framkvæmdir til að skapa störf og efla byggð.
Það er gott að búa á Austurlandi og hér liggja gríðaleg tækifæri í sjávarútvegi (t.d. fiskeldi), ferðaþjónustu (í tengslum við stærsta Þjóðgarð Evrópu) og í öflugum fyrirtækjum tengdum mannvirkjagerð (Mannvit). Hér eru sóknafæri í hönnun og handverki og síðast en ekki síst þá tel ég að við getum, í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla, byggt upp öflugt staðbundið háskólanám á Austurlandi, grunnnám, meistara og doktorsnám.
Sóknafæri Austfirðinga felast liggja einnig í öflugri ferjuhöfn á Seyðisfirði, útflutningshöfn á Reyðarfirði og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar. Hér má byggja upp öfluga strandflutninga og fólksflutninga sem rennt geta stoðum undir ferðaþjónustu, út- og innflutning á svæðið.
Ég set Evrópumálin á oddinn vegna þess að ég er Evrópusinni í hjarta mínu og tel að aðild að EU færi okkur ekki eingöngu efnhagslegan stöðuleika og bæti stöðu heimilanna heldur einnig vegna þess að ég veit að við eigum margt ólært til að okkar efnahags-, velferðar og menntakerfi standist samanburð.
Þó ég bjóði mig hér fram í 2.-4. Sæti lista Samfylkingarinnar í Norð-Austur kjördæmi þá ætla ég og mínir ekki að flytja af svæðinu, ef ég kemst á þing, enda legg ég til að þingið nýti sér tæknina og geri þingmönnum kleift að stunda sín störf í heimabyggð, mig minnir að þetta hafi kallast í síðustu kosningabaráttu Störf án staðsetningar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.