2.3.2009 | 22:48
Framboðsfundir og fyrirtækjaheimsóknir
Um helgina fóru fram kynningafundir frambjóðenda, fyrsti fundurinn var óformlegur og var á Dalvík, sá næsti var á Akureyri og sá þriðji á Egilsstöðum. Vel var mætt á Dalvík og þar fóru fram fjörlegar umræðu þar sem bæði frambjóðendur og Dalvíkurbúar ræddu málin. Fundurinn á Akureyri var ágætur en mér fannst vanta uppá samræðulistina og sama má segja um fundinn á Egilsstöðum sem þó var mjög vel mætt á. Það að ræða hlutina varpar nýju ljósi á áherslumálin og gefur frambjóðendum tækifæri til að rökstyðja skoðun sína. Samræður við fundargesti eftir fundinn voru það sem gaf þeim gildi en þær urðu ekki til þess að frambjóðendur gætu rökrætt áherslur sína og áherslumun, sem er mikilvægt.
Í dag fór ég í fyrirtækjaheimsóknir í Fjarðabyggð með vinkonu minni Gullu. Við heimsóttum Loðnuvinnsluna og grunnskólann á Fáskrúðsfirði, Nótaverksmiðjuna á Eskifirði, Launafl, Glitnir, KK-matvæli, grunnskólann og leikskólann á Reyðarfirði, Sparisjóðinn, Olíssjoppuna, bæjarskrifstofurnar, Námsverið á Reyðafirði, Mannvit og Running. Ég vil þakka fólki fyrir að taka á móti okkur og ég varð margs vísari.
Fólk er orðið þreytt á pólitík, það treystir ekki pólitíkusum, þá eru margir efins um ágæti Evrópusambandsins og að lokum þá er fólk orðið langeygt eftir breytingum og því að stjórnmálamenn axli ábyrgð og margir beindu spjótum sínum sérstaklega að Ingibjörgu Sólrúnu. Eitt áttu viðmælendur okkar sameiginlegt og virðist þá ekki skipta máli hvaða flokki það fylgir, það treystir Jóhönnu best þeirra stjórnmálamanna sem eru í framlínunni. Ég get tekið undir allt af ofangreindu, ég hef í raun verið reið og ráðvillt frá því í lok september. Þrátt fyrir að ég hafi líka verið búin að fá mig fullsadda af þennslunni þá blöskrar mér sá ruddaskapur og óheilindi sem viðhafður hefur verið af útrásarvíkingum og ráðamönnum síðusta áratug.
Varðandi stjórnmálin þá finnst mér þau einfaldlega ekki hafa verið að virka, a.m.k. ekki hjá Samfylkingunni í þessu kjördæmi hingað til. Það hefur ekki verið nein samræða við fólkið í kjördæminu, fundir Samfylkingarinnar eru oftast lokaðir og ef þeir eru opnir þá mæta fáir. Framsókn, Sjálfstæðis og Vinstri Grænir hafa staðið sig mun betur hingað til. Við þurfum að gera betur og opið prófkjör er fyrsta skrefið í rétta átt..... Stjórnmálin eiga að snúast um samræður (dialogue).
Til þess að fólk fái trú á stjórnmálum þá þarf fólk að taka þátt í stjórnmálum. Í starfi mínu fyrir Þróunarfélagið og Þekkingarnetið hef ég tekið mun virkari þátt í stjórnmálum en á þeim stutta pólitíska ferli sem ég á að baki. Í þeim störfum snýst allt um að skilgreina þarfir, leita hugmynda til að mæta þeim, skilgreina verkefni og taka ákvörðun um að ráðast í ákveðin verkefni, sem síðan þarf að fjármagna með einhverjum hætti. Stjórnmál framtíðarinnar, að mínu mati, munu snúast um nákvæmlega þetta ferli, stjórnmálamenn þurfa að vera virkir í því að leita hugmynda, þróa verkefni/ fyrirtæki, vinna að fjármögnun þeirra með einhverjum hætti. Einhver sagði "Neyðin kennir naktri konu að spinna" og stjórnmálamönnum að vinna! Eða hvað?
Það er ekki af neinni kurteisi sem ég fór í framboð, það er einmitt vegna þess að ég er ekki sátt við núverandi ástand, mér leiðist sá hroki og þau óheilindi sem hafa verið allsráðandi. Eflaust verður komandi tíð erfið og lítið að fjármagni til að vinna með en ég held að við komumst upp úr þessu, eilítið löskuð, hógværari, heimsvanari og með heilsteyptari sjálfsmynd en hingað til.
Mig langar að enda á hugleiðingu frá Gunnari Hersveini heimspekingi um vináttuna: "Hver maður er einn stakur hugur og því má segja að maðurinn sé alltaf einn. Það kemur þó ekki í veg fyrir vináttu heldur glæðir hana því að vinir gera líf hvers og eins bærilegt. Einangraður maður er aftur á móti takmarkaður maður, hann getur ekki speglað sjálfan sig í öðrum. Vinalaus maður hefur óljósar hugmyndir um sjálfan sig, janfvel þótt hann sé innan um aðra, hann getur ekki fullþroskað tilfinningar sínar og hegðun. Vinur fyllir hins vegar lífið ánægju og skapar möguleika á sjálfsþekkingu... Vinátta felst í því að gera eitthvað saman, vinna, skemmta sér og leysa vandamál. Það vekur vonir um framtíðina að gera eitthvað ánægjulegt saman og skapa góðar minningar. "
Við getum stigið fyrsta skerfið í gagnkvæmri vinnáttu okkar við aðrar Evrópuþjóðir, það skref þarf að taka af ákveðinni auðmýkt en ekki þeim hroka sem einkennt hefur þá sem farið hafa fyrir þjóðinni hingað til...... Án vinskapar við Evrópusambandið gæti Ísland átt litla möguleika á að rísa úr öskustónni, byggja upp eigin sjáflsmynd og læra af reynslunni. Við getum ekki endalaust speglað okkur í sjálfum okkur með það að leiðarljósi að við þurfum að græða á öllum okkar samböndum. Aðild að Evrópusambandinu er ekki reikningsdæmi í mínum huga heldur spurning um samskipti, samstarf, þróun og uppbyggingu á Evrópu sem bandalagi lýðræðisríkja.
Ég get fyllilega skilið áhyggjur af landbúnaði, skrifræði og sjávarútvegi og ef okkur verða settir afarkostir sem við getum ekki gengið að þá að sjálfsögðu segjum við nei .... Þannig að það er allt að vinna og engu að tapa á láta reyna á velvild og samstarfsvilja okkar ágætu nágranna.
Athugasemdir
Frábært! Stuðningsmaður að sunnan
hann (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 23:05
Frábær pistill hjá þér og ég get tekið undir margt.
Svo ég svari nú fyrir fundinn á Egilsstöðum, þá var mér sem fundarstjóra uppálagt að halda formi fundarins á Akureyri. En það hefði vissulega verið áhugarvert að fylgja framsögunum eftir með beinskeyttum rökræðum frambjóðenda. Maður fær ekki almennilega heildarmynd af frambjóðendum með stuttri framsögu. Spontant dialogar við beittum spurningum gefa allavega annan vinkil.
Gangi þér vel í baráttunni.
Tjörvi (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 10:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.