5.3.2009 | 20:03
Dyggðin - Að iðrast og læra af reynslunni
Samkvæmt Aristótelesi heitnum þá er dyggð meðallag tveggja lasta í lífi mannsins. Ari tekur sérstaklega fyrir viðhorf mannsins til eigin yfirsjóna þar sem lestirnir eru kæruleysi/samviskulaus undansláttur (skortur á dyggð) og krónísk sektarkenns/skömm (skefjaleysi) á meðan dyggðin felst í iðrun, vilji til að læra af reynslunni og sjálfsfyrirgefning (meðalhóf).
Mér finnst sem íslenskir stjórnmálamenn og aðrir ráðamenn hafi ekki enn til að bera þá auðmýkt sem nauðsynleg er til að læra af reynslunni, það gerir menn að mönnum.
Það var t.d. mjög athyglisvert að heyra í Geir og Jóhönnu eftir niðurstöður síðustu skoðanakannanna. Það er náttúrulega ekki Geir að þakka að sjálfstæðisflokkurinn er að rétta úr kútnum heldur er það grasrót Sjálfstæðisflokksins að þakka sem hafði það hugrekki að horfast í augu við raunveruleikann og gefa út skýrslu um mistakasögu flokksins (sem endurspeglaði að sjálfsögðu ekki afstöðu sannra sjálfstæðismanna - eða hvað? Fékk fólkið í flokknum e.t.v. trú á lýðræði innan hans og endurnýjun?). Á sama hátt þá er það Ingibjörgu að þakka að fylgi Samfylkingarinnar er að minnka (því að fólk í hennar flokki og þeir sem höfðu hugsað sér að kjósa fylkinguna fremur en Sjálfstæðisflokkinn hættu snöggvast við þegar flokkseigendaklíka raðaði í sætin í Reykjavík (hroki?) og VonarDagur hætti við að stugga við formanninum).
Ég held að í grunnin séu bæði Geir og Ingibjörg gott fólk en þau eru ekki alveg að skilja stöðuna. Ég sé ekki betur en að fólkið í landinu og í grasrót beggja hreyfinga sé búin að segja sitt með búsáhöldum og skýrsluskrifum. Það er ekkert sem segir að Geir og Ingibjörg eigi ekki afturkvæmt í stjórnmálin en það er hinsvegar þannig að þegar þú verður gjaldþrota þá þarftu að leggja niður fyrri störf, hlaða batteríin, læra af reynslunni og koma síðan sterkur inn í aðra umferð. Enginn verður óbarinn biskup. Það sama má segja um okkar ágæta forseta sem gæti sparað þjóðinni umtalsvert fé við það að hætta og þeim fjármunum sem nú er varið í það embætti mætti verja til þess að kjósa valinn þverpólitískan hóp úr öllum kjördæmum (karl og kona til skiptist) til að endurskoða stjórnarskránna og leggja grunn að nýju lýðræði á Íslandi. Hættum öllum óþarfa og prjáli, höfum hugrekki til að breyta þinginu, stjórnarskránni og embættismannaveldinu.
Annars leiðist mér að vera stöðugt að pæla í sálarlífi okkar ágætu stjórnmálamanna en það skiptir máli nú líkt og í öðrum gjaldþrotamálum að framkvæmdastjórarnir víki þó hinn almenni starfsmaður haldi áfram, þannig að þekkingin af rekstrinum haldist innan fyrirtækisins. Mér finnst samt einsog hinn almenni starfsmaður sé að víkja (Lúðvík, Björgvin, Valgerður o.fl. Að vísu enginn sjálfstæðismaður) á meðan framkvæmdastjórarnir sitja áfram í sínum sætum eða láti af störfum án iðrunar. Við þurfum blöndu af reyndu og óreyndu fólki á þing í vor og við þurfum á því að halda að fólkið í landinu fái aftur trú á stjórnmálunum og taki virkan þátt í þeim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.