12.3.2009 | 22:23
Fagmennska fremur en forn hugmyndafræði ?
Í sínum mesta einfaldleika snúast stjórnmál og val fólks á stjórnmálaflokkum um ákveðna lífssýn:
- Sjálfsstæðismenn vantreysta ríkisbákninu, treysta á einstaklingsframtakið (sjálfstæðið) og lengst til hægri er fjálshyggja.
- Samfylkingarmenn telja hlutverk ríkisvaldsins að jafna kjör fólks í landinu og þeir sem lengst vilja ganga hallast að kommúnisma.
- Framsókn byggir á bændasamfélaginu, samvinnufélögunum og samstarfi og samvinnu.
- Vinstri grænir sem byggja á hugmyndum um umhverfisvernd hin síðustu ár en voru samtök sem stofnuð voru sem mótframboð við Samfylkinguna á sínum tíma, gegn kratavæðingunni.
Hafa e.t.v. allar hafa þessar stefnur orðið gjaldþrota og hvar eru þær skilgreindar í raun? Engin þeirra er lausnin á vandanum sem við erum nú í, sá vandi var mótaður af frjálshyggju, studdur af spilltum fulltrúum samvinnuhugsjónarinnar og valdaþyrstum jafnaðarmönnum, á meðan voru Vinstri Grænir fúlir á móti.
Breytingar á hinu opinbera kerfi síðustu ár hafa falist í einkavæðingu samhliða auknum kostnaði af opinberri þjónustu, auk þess sem aukinn kostnaður hefur lent á neytandanum. Samkeppni hefur verið lykilhugtak, auka þarf samkeppni í heilbrigðisþjónustu, menntun og stoðkerfinu, samkeppni hefur verið talin forsenda nýsköpunar ekki bara í atvinnulífinu heldur í öllum geirum samfélagsins, þessi þróun hefur leitt til tvíverknaðar í (opinberri ) þjónustu hvort sem hún er rekin af opinberum aðilum eða einkaaðilum. Í einkavæðingu fjármálageirans var ábyrgðin á hendi ríkisins á meðan framkvæmdavaldið var á hendi atvinnulífsins. Í þessu einkavæðingarferli hefur ekki verið unnið faglega, hvorki með grasrót né fagfólki í viðkomandi greinum. Allt hefur verið gert í hraði en án fyrirhyggju, allt hefur snúist um arðsemi - hagvöxt, það að fá sem mest og sem fyrst. Hugmyndir um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð hafa verið smættaðar með upptöku þeirra í hátíðarræðum á tillitdögum.
Ný stjórnmál þurfa að snúast um fagmennsku fremur en hugmyndafræði. Til að styrkja lýðræðið þarf að tryggja áhrif bæði grasrótarinnar og fagaðila að stefnumótun í ólíkum greinum. Vissulega kallar slíkt samráð á ákveðið skrifræði og utanumhald en það er e.t.v. betra en stjórnleysi, sýndarmennska og fyrirgreiðslupólitík. Reglan um framgang nýrra hugmynda er að til að þær fái brautargengi er nauðsynlegt að þekkja vel til ráðherra, þingmanna og vera góður liðsmaður í stjórnmálaflokki. Við þurfum aga, skipulag, þekkingu og reglugerðir til að endurskipuleggja stjórnkerfið og umhverfi atvinnulífsins á Íslandi. Það hefur sýnt sig að skortur á reglugerðum og eftirliti hefur orðið til þess að ekkert sem ekki var bannað var gert, hvort sem það var siðlaust eða ekki. Fagleg vinnubrögð kalla líka á jöfnuð, sanngjarnari mennferð mála og verkefna.
Í kreppunni er mikilvægt að skilgreina grunnþjónustu hins opinbera (hið íslenska velferðarkerfi) því það er ljóst að eftirspurn eftir þeirri þjónustu á bara eftir að aukast, jafnhliða þarf að draga úr kostnaði og tryggja endurreisn atvinnulífsins, eða hvað?
Athugasemdir
Það má til sannsvegar færa að hugmyndafræðikenningar einar og sér, eru til lítils án fagmennsku, en hinsvegar er fagmennska til einskis án heiðarleika. Og að mínu viti hefur óheiðarlegt fólk náð fram vilja sínum með flóknum faglegum nálgunum á peningalegum gróðvænlegum viðfangsefnum og platað þing og þjóð svo svíður. Siðleysið fullkomið.
Siðferðileg fagmennska og heiðarleiki, er blanda sem okkur vantar!
Tjörvi (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 08:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.