25.4.2009 | 11:49
Jafnaðarmenskan – hinn gullni meðalvegur?
Síðasta öld og upphafið á þessari sem við nú lifum á hefur einkennst öðru fremur af því að mannfólkið hefur verið að prófa hinar ýmsu gerðir hugmyndakerfa. Stjórnmálin hafa þróast frá lýðræði til konungsdóms, til einræðis, til kommúnisma og til kapítalismans sem hefur verið allsráðandi síðustu áratugi. Þegar sjálfstæðismenn ræða grunngildi sín í pólitík, varpa þeir gjarnan fram þeirri fullyrðingu að kraftur samfélagsins felist fyrst í frumkvæði einstaklingsins og að frelsi og samkeppni sé forsenda þess að vel takist til í öllum rekstri hvort sem er stofnanna eða fyrirtækja. Þessi skilningur byggist á því að einstaklingum sé betur treystandi til að standa vörð um hagsmuni ríkisina en stjórnvöldum. Hugmyndafræði sjálfstæðimanna hefur kostað samfélagið mikið, orðið til þess að stofnanir sem áður voru reknar af ríkinu voru einkavæddar í nafni frjálshyggjunnar. Það sem gerðist var að ríkisfjármál þöndust út, oft vegna þess að mun dýrara var fyrir ríkið að kaupa þjónustu af einkaaðilum en sjálfu sér eða kostnaði var velt yfir á þegna ríkisins og þá helst þá sem minnst máttu sín, samanber þróun heilbrigðisþjónustu. Á meðan kommúnisminn boðaði sameign allra eða öllu heldur ríkiseign á öllum samfélagsgæðum þá byggir jafnaðarmennskan bæði á trú að frumkvæði einstaklingsins sem og mikilvægi samfélagsins sem velferðarkerfis sem tryggir jöfn tækifæri til samfélagsþáttöku.
Að þessu sögðu þá má segja að Jafnaðarmennskan mætti skilgreina sem meðallaga tveggja lasta, þar sem lestirnir snúast annars vegar að kommúnisma (þar sem ríkisafskiptin eru of mikil) og hinsvegar um kapítalisma/frjálshyggju (þar sem þessi afskipti og ábyrgð er of lítil). Kommúnisma þar sem ríkið ofmetur hlutverk sitt gagnvart þegnum sínum, vill eiga allt og stjórna öllu og þar sem þetta mikla vald spillir embættismönnum ríkisins. Kapítalisma þar hlutverk einstaklinganna og fjármagnsins er ofmetið sem verður til þess að einstaklingarnir sem treyst er fyrir stofnunum eða fjármunum ríkisins fá að leika sér frjálsir af afskiptum ríkisins en með allar eigur þess undir. Þjóðarsál Íslendinga hefur oft sveiflast öfganna á milli, það er spurning hvort við getum nú ratað meðalveginn? Er kapítalisminn ekki fallinn? Þess vegna er mikilvægt að jafnaðarmenn sigri í næstu kosningum og að við náum að endurskilgreina hlutverk ríkisvaldsins en um leið hvetja til nýsköpunar og frumkvæðis allar einstaklinga, ekki fárra útvaldra.
Það skiptir líka höfuðmáli að allir taki þátt í uppbyggingu samfélagsins, embættismenn, ríkisstarfsmenn, frumkvöðlar og leiðtogar og að við leggjumst öll á árarnar til að koma okkur upp úr kreppudalnum. Til þess að svo verði þá þurfum við líka öll að stunda pólitík og ekki treysta fáum til að fara með valdið. Það er vinna að ástunda lýðræði og viðhalda því. Við megum ekki láta kreppuna hafa þau áhrif að við hættum að hafa áhuga á stjórnmálum heldur þvert á móti eigum við að veita stjórnmálamönnum aðhald.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.