Stefnuræða Jóhönnu tímamótatal !

Með ræðu sinni færði Jóhanna evrópuumræðuna inn á nýtt plan þar sem lögð er áhersla á jákvæð viðhorf gagnvart vinum okkar í Evrópu fremur en að ala á ótta og öryggisleysi þjóðarinnar. Í stað þess að leggja höfuðáherslu á mikilvægi evrunnar fyrir Íslendinga hóf Jóhann umræðu um önnur svið evrópusamstarfsins og þau tækifæri sem í því liggja. Íslendingar hafa aldrei gifst til fjár og allra síst núna þegar trúin á kapítalið er í sögulegu lágmarki. Það eru svo miklu fleiri og merkilegri fletir á aðild Íslendinga á Evrópusambandinu og slík aðild verður aldrei að veruleika nema að Íslendingar fari inn í sambandið með beint bak, bein í nefinu og fullvissu um að sambandið muni endast, blómstra og færa þeim farsæld í framtíðinni. 

Það er því mikilvægt að alþingismenn fylgi nú samvisku sinni þegar kemur að aðildarviðræður við Evrópusambandið og að þingið fari að stunda samræðustjórnmál í stað átakastjórnmála eða hjarðhegðunar sem væri líklega réttnefni á þeirri tegund af pólitík. Það er ákall þjóðarinnar nú til víðsýnna framsóknarmanna, sjálfstæðismanna, borgaranna og meira að segja vinstri grænna að þeir standi á bak við aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.  


mbl.is Leiði mótun sjávarútvegsstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú hlýtur að vera að grínast, eða þú ert blind. Þetta er lélegasta lesning og aumasti flutningur sem hefur sést á Alþingi. Sigríður Árnadóttir ræðuritari Jóhönnu hefur ekki verið ánægð með flutninginn á ræðunni sem hún skrifaði fyrir Jóhönnu, sem hafði greinilega ekki lesið hana yfir áður en hún fór púltið. Jóhanna hefur reyndar alltaf verið ömurlegur ræðumaður, en þarna toppaði hún ömurleikann sjálfann.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 23:34

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Fyrir 60 árum var kosið og 51% sagði já. Meirihlutinn ræður og niðurstaðan varð að Nýfundnaland gekk inn í kanadíska ríkjasambandið.

Næstu tvo áratugina voru menn þokkalega sáttir. En svo fór fjarlægð valdsins að segja til sín. Allt frá árinu 1980 hefur efnahag landsins hrakað og arður af hinum miklu auðlindum rennur burt. Fólki fækkar jafnt og þétt, atvinnuleysi er landlægt og bótaþegar eru margir.

Í dag syrgja já-menn að hafa látið glepjast af gylliboðum um bætur, aðstoð og styrki. Þeir fara með veggjum og stolt þjóðarinnar er glatað. Fólkið skortir þann slagkraft sem hvarf með fullveldinu.

Nú er ESB að breytast mikið með Lissabon samningnum og færist í átt að sjálfstæðu sambandsríki. Inngang Íslands í Evrópusambandið yrði ekki að fullu sambærileg við inngöngu Nýfundnalands í kanadíska ríkjasambandið, en óþægilega lík samt.

Við yrðum eflaust sátt fyrstu árin. Jafnvel tvo áratugi eða lengur. En sá tími mun koma að fjarlægð valdsins segir til sín og það verður íslenskri þjóð til tjóns. Það er ekki víst að ég lifi þann dag, en það veitir mér ekki rétt til að segja já við inngöngu því ég veit að hún mun á endanum leiða til tjóns. Það verður ekki hjá því komist.

Hvers vegna á Ísland að kjósa frá sér lýðræðið? Innan Evrópusamband er lýðræði ekki til, nema bara upp á punt. Þegar kemur fram á fjórða áratug þessarar aldar verður of seint að fatta að nei var rétta svarið.

Haraldur Hansson, 19.5.2009 kl. 01:22

3 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Með stefnuræðu sinni tók Jóhanna fyrstu skóflustunguna að gröf þeirrar ríkisstjórnar sem hún á að heita í forsvari fyrir. Grundvallarágreiningur er um aðild Íslands að ESB innan stjórnarinnar sem hún leiðir. Í stað þess að viðurkenna það hagaði ráðherranna sér eins og væri hún í miðri kosningabaráttu og réði ein ferðinni í þessu máli.

Hjörleifur Guttormsson, 19.5.2009 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband